Tumgik
taugahinsegin · 7 years
Text
Truflandi líkamar.  Erindi flutt á ráðstefnunni Truflandi tilvist 2. mars 2017.
**Trigger Warning** Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, lýsing á áfallastreituröskun, afleiðingar. 
Ég er kölluð Adda. Ég kalla mig stundum taugahinsegin, en það er þýðing á neuro-queer, sem er upprunið frá einhverfum aktívistum sem hafa endurskilgreint sitt taugaástand sem hinsegin í staðinn fyrir frávik eða röskun. Ég er ekki einhverf en ég er með næmar taugar og geð, sem stundum er svo ólíkt því sem gengur og gerist að ég rekst ekki með öðru fólki og passa ekki inní þann kassa sem samfélagið býður uppá.
Og stundum er ég truflandi og stuðandi. Hvernig?
Það sem mig langar til að tala sérstaklega um í dag, er sá flötur á tilvist minni sem er að lifa í líkama með afleiðingum sifjaspells í æsku. Áður en ég fer lengra inn í erindið kemur efnisviðvörun, eða trigger warning. Ég mun lýsa afleiðingum kynferðisofbeldis, sérstaklega áfallastreituröskun, en ekki ofbeldi.
Ég mun ekki dvelja lengi við nákvæmar lýsingar, en þær gætu samt kallað fram erfiðar tilfinningar hjá einhverjum. Ef þetta verður of mikið þá tek ég því ekki persónulega ef fólk þarf að standa upp og hreyfa sig, taka upp snjallsímann, eða fara út.
Hvers vegna vil ég tala um áfallastreituröskun? Því af öllum þeim fjölmörgu geðrænu eða andlegu reynslum sem ég hef, þá er þetta sú sem virðist vera mest truflandi fyrir samfélagið. Þó að reynslusögur þolenda séu velkomnar í fjölmiðlum þýðir það ekki að samfélagið sé þolendavænt. Það er t.d. enn frekar lokað gagnvart því að börn sem eru vanrækt, eða verða fyrir áreiti, mismunun eða ofbeldi vaxi úr grasi. En þau gera það, og þau eru útum allt að burðast með afleiðingarnar og rekast daglega á hindranir, veggi og geta oft ekki tekið fullan þátt í samfélaginu. Þau einangrast.
Ég var 5 ára þegar ég varð fyrst fyrir sifjaspelli, og sjö ára þegar það gerðist næst. Um ellefu ára aldur breyttist persónuleikinn minn og ég fann fyrst fyrir því sem kallast þunglyndiseinkenni, djúpt tilgansleysi, sorg, lífsleiði. En tengdi aldrei það við þessi atvik. Þunglyndi og kvíði hafa verið veganesti mitt síðan, en það var ekki fyrr en ég var 34 ára að ég fékk fyrsta áfallastreitukastið mitt, og þar með opinberaðist fyrir mér tengingin.
Mig langar að segja ykkur frá þessu fyrsta kasti. Það kom uppúr því að ég fékk tölvubréf frá pabba mínum þar sem hann gerði svolítið lítið úr alvarleika annars atviksins, en gerandinn í málinu var pabbi hans, afi minn. Ég hrundi niður á eldhúsgólfið hágrátandi og upplifði skrýtna hluti í líkamanum sem ég á erfitt með að lýsa. Einhverskonar hættuástand.
Nokkrum dögum seinna var ég á kaffihúsi með vinkonu minni og sagði henni frá bréfinu. Allt í einu fann ég hvernig mátturinn seitlaði úr líkamanum, ég lak niður í sætinu, gat ekki einbeitt mér að því sem hún var að segja, umhverfishljóðin tóku yfir og ég heyrði ekki í henni lengur. Ég pantaði tíma á Stígamótum og fór svo heim í rúmið. Ég fékk verki um allan líkamann, líka á þeim stöðum sem tengdust atvikinu. Og verkirnir fóru ekkert. Ég svaf ágætlega næstu nótt en vaknaði ennþá með verki. Ég var hrædd og ringluð. Enginn hafði sagt mér frá svona verkjum. Einnig var ég mjög lítil í mér, og langaði til að foreldrar mínir myndu sjá um mig, gefa mér mat og hugga mig. En ég vildi ekki huggun í nútíðinni, ég vildi huggun aftur í tímann, þá. Og það er ekki hægt að fá þannig huggun frá öðrum. Svo ég reyndi að hugga sjálfa mig, aftur í tímann. Það var mjög erfitt þar sem mér leið svo illa í fullorðinslíkama mínum og átti erfitt með að vera foreldri míns innra barns.
Ég var meira og minna rúmliggjandi í nokkra daga eftir þetta. Eftir þetta fyrsta kast hafði eitthvað breyst í líkamshuganum vegna þess að þetta varð reglulegur viðburður. Ég á mikið af femínistavinum sem vinna með kynferðislegt ofbeldi og smám saman dró ég mig útúr allri þannig umræðu og fjarlægðist vini mína. Að tala um upplifanir mínar og sálfræðimeðferðina var líkamlega sárt, svo sárt að það var eins og það væri verið að toga í taugarnar á mér. Ég dró mig líka útúr sjálfshjálparhópum af því það að hlusta á reynslusögur var gjörsamlega útilokað, þær voru eins og rússnesk rúlletta. Fjölskylduboð voru nánast útilokuð. Sama með bíómyndir og ég hætti alveg að fara í leikhús. Ég gat ekki stundað fjallgöngurnar mínar lengur og fjarlægðist þar með útivistarvinahópinn minn. Streitan versnaði við áreynslu, svo ég átti það til að brotna niður og fara að hágráta í miðju fjalli, það var nóg að einhver t.d. nefndi nafnið á frægum geranda.
Afleiðingarnar af einni svona triggeringu vörðu stundum í viku jafnvel tvær. Eftir að ég var risin upplifði ég oft mikið frelsi og gleði, en síðan mætti þunglyndið oft og stóð fram að næsta kasti. Í tvö ár skiptist þetta tvennt á og ég gat augljóslega ekki sinnt reglulegri vinnu. Sem betur fer átti ég mjög góða vini, fjölskyldu og sambýlisfólk sem ég leitaði til þegar ég gat ekki burðast lengur ein með sársaukann, sama hversu erfitt var að deila. Ég er þakklát fólkinu mínu ævilangt fyrir stuðninginn.
Ég fór í áfallameðferð og lærði smám hvað var að gerast. Þetta var áfallastreituröskun og hún virkaði þannig að tilfinningar, minningar og orka sem höfðu myndast í líkamshuga mínum þegar ég varð fyrir áföllunum fóru alltíeinu að bæra á sér eftir margra áratuga dvala. Ævagömul og fryst viðbrögð leystust úr læðingi, eins og bjarndýr að vakna úr vetrarhýði. Þetta er náttúrulegt ferli. Áfall verður þegar öryggi okkar eða lífi er ógnað á einhvern hátt. Þegar við erum börn eru umhyggjuaðilarnir öryggið okkar og ef þau sýna hegðun sem lætur okkur líða eins og þau séu ekki að passa okkur lengur, getum við orðið fyrir áfalli. Mismunun og öráreyti getur líka valdið áföllum. Missir, skilnaður, læknisfræðilegar aðgerðir og barnsfæðingar líka og meira að segja að verða vitni að ofbeldi eða slysum hjá öðrum. Og ef einstaklingurinn fær ekki stuðning frá fjölskyldu eða vinum þegar áfallið gerist, þá getur áfallið haft verri afleiðingar eða ella.
Að vinna í áfallinu er líka sárt. Ég fór í tíma uppá Höfðabakka, og þegar tíminn var búinn leið mér iðulega eins og ég væri ein í heiminum. Nýbúin að fara gegnum atvikið í huganum og upplifa allt aftur, eða kannski í fyrsta skiptið. Mér leið þá eins og eitthvað alveg hræðilegt væri búið að gerast akkúrat núna og ég þyrfti hjálp við að bjarga mér úr aðstæðunum. En samt hélt heimurinn áfram sinn vanagang, samfélagið stoppaði ekki þó að barn hafi verið beitt ofbeldi, barn sem var núna 36 ára. Það er mjög skrýtin tilfinning. Ég gat ekki hugsað mér að tala við neinn, en ég þráði huggun, aðstoð, ís og kósíheit. Einstöku sinnum tók ég sénsinn og leyfði fólkinu mínu að hugsa um mig, og það var gott að finna að stundum gat ég það og við gátum það saman, leyft mér að vera lítil. Ég er þeim ævinlega þakklát.  
Ég upplifði oft á þessum tíma að ég ætti heima inná hæli. Og ég fór á hæli. Ég fór og var í margar vikur, oft. Þetta var mitt annað heimili á köflum. Það gerði mér mjög gott, en hæli eru ein mest triggerandi staðirnir ég veit um. En ég þarf að geyma dæmin um það þar til síðar.
Smám saman fóru viðbrögð mín við triggeringum að breytast, ég fór að bregðast við þeim með meiri samstöðu með sjálfri mér. Og þarna fór áfallastreitan að hjálpa mér að verja sjálfa mig fyrir meiri sársauka. Í aðstæðum þar sem ég hefði áður kannski farið að gráta í hljóði, þá var reiðin farin að blossa upp og ég setti mörk, var ákveðin. Ég stoppaði fólk af. Og það gaf mér vald yfir aðstæðum mínum.
Ég sagði t.d. við vini og fjölskyldu „værir þú til í að fara ekki lengra útí þessa umræðu?“. Það var ekki þægilegt fyrir fólk, skiljanlega. En sannleikurinn er sá að ég upplifði líkamlegt sjokk í hvert skipti sem fólk fór of langt. Ég hélt niðrí mér andanum. Hugurinn umturnaðist og ég eitt orð endurómaði í huga mínum: „hættu, hættu, hættu, hættu“. Stundum var ég orðin svo skrýtin á svipin að fólk stoppaði sjálft.
Og hvernig hefur mér reitt af síðan? Ég hélt, þegar ég var sem verst, að ég myndi aldrei aftur geta tekið þátt í samfélaginu eins og mig langaði. Ég er kynjafræðimenntuð en ég vissi ekki hvernig ég gæti unnið í þeim geira, þar sem mikið er fjallað um kynferðisofbeldi. Jafnvel þótt ég væri smám saman að ná meiri bata. Ég fantaseraði um vinnustað með hvíldarherbergi, jurtate og róandi tónlist, þar sem ég gæti hlustað á mitt daglega slökunarprógram, stundað mína hugleiðslu og gert þá hluti sem ég þarf til að næra mína sál og róa mínar taugar. Þar sem ég gæti unnið hæfilega mikið á hverjum degi, ekki átta tíma ómanneskjulegan vinnudag.
Til að gera langa sögu stutta fékk ég vinnu þar sem menntun mín og hæfileikar fá að njóta sín, og það er tekið tillit til þess að ég get ekki unnið með ofbeldismál. Ég er þakklát fólkinu sem ég vinn með, að það skuli taka tillit til minna aðstæðna. Því satt best að segja hélt ég að það væri ekki í boði fyrir mig. Ég vinn rúmlega hálft starf og er á örorkubótum á móti, svo ég fæ tekjur sem duga mér. Einnig fæ ég regluleg knús í vinnunni og finn að fólk gefur mér stuðning ef ég bið um hann.
Ég veit hinsvegar að ég er í forréttindastöðu. Ég er með gott bakland á Íslandi, ég tala tungumálið og tjáningarleið mín er viðurkennd og normaliseruð. Ég er í aðstöðu til að nota peningana mína í meðferðir. Þar sem skerðingin mín, eða fötlunin mín, er ósýnileg, þá fæ ég tækifæri sem fullt fólki býðst ekki, og get sannað mig áður en ég fer fram á sérstakar þarfir. Og hellingur af fordómum sem fólk með sýnilegri fatlanir mætir, mæti ég bara alls ekki.
Á móti kemur að mér datt aldrei í hug að leita í styrk og samstöðu fötlunarbaráttunnar og hef oft verið frekar mikið ein með mitt ástand. Eftir að ég kynntist Freyju og Emblu og Tabú, og fór að lesa mér svolítið til, hef ég fundið fyrir nýrri samstöðu og fengið hjálp við að túlka aðstæður mínar út frá nýjum skilgreiningum. Þó að reynsla okkar og barátta sé um margt ólík þá erum við öll að takast á við sömu kúgandi viðmiðin um hvað telst heilbrigt, andlega, líkamlega og tilfinningalega, hvað telst full vinnufærni og þátttaka í samfélaginu.
Orðalagið sem oft er notað um afleiðingar kynf.ofbeldis ber vott um að samfélagið okkar sé afneitunarsamfélag. Talað er um að kynf.ofbeldi hafi sálrænar afleiðingar sem þolendur þurfa að bera. Ég vil samfélag sem er í stakk búið til að bera afleiðingarnar með þolendunum, og samfélag sem ræður við a�� aðstoða gerendur við að taka ábyrgð.  
0 notes
taugahinsegin · 7 years
Text
Að stíga niður í hafsbotninn
“Þegar þú syndir á yfirborði hafsins stígur fótur þinn niður til botns hafsins.” (Dogen Zenji, zen búddisti frá 13. öld). 
Tumblr media
Ég er stundum hrædd við botnlaust tómið innra með mér. Það birtist stundum þannig að ef ég upplifi sorg þá þori ég ekki að leyfa henni að vera. Ég þori ekki að fara með henni, þori ekki að láta hana taka mig. Því ég er hrædd um einmitt það, að ég fari með henni - að hún taki mig. Og að ég komi seint eða aldrei aftur. 
Ósjálfrátt fer ég þá að hlaða á mig verkefnum. Skrifa to-do lista og framfylgja þeim. Ég bý til marga lista, á mörgum stöðum. Þangað til að to-do listarnir eru farnir að eiga sér sjálfstætt líf og uppfæra sig sjálfir á næturna, jafnvel farnir að eiga samtal hvor við annan. Og ég hef enga stjórn, nema að stíga stundum til hliðar og fylgjast með þessu gerast. 
Sorgin eða depurðin, eða hvaða sterka líðan sem er, getur verið svo ógnvænleg; sérstaklega fyrir þau okkar sem hafa einhverntímann farið mjög djúpt og kannski verið hrædd um að koma aldrei aftur. Ég er hrædd um að undir sorginni leynist botnlaust tóm, sama botnlausa tómið og ég hef áður villst í. Ég er hrædd um tímavél, að ég fari tilbaka með henni, á sama vonda staðinn. Ég gleymi hvað mikið hefur gerst í millitíðinni og að ég er hér, nú. 
Í dag rakst ég á fallega líkingu sem hjálpar mér að takast á við þennan ótta við botnlaust tómið. Textinn er eftir Dainin Katagiri, en hann var japanskur zen búddisti og starfaði sem zen kennari í Bandaríkjunum. Í textanum leggur hann út af setningunni hér að ofan, um að stíga niður til hafsbotnsins.
[...] Dogen Zenji [segir] að þegar þú syndir á yfirborði hafsins þá stígi fóturinn þinn niður til botns hafsins. Samkvæmt almennum skilningi er þetta ómögulegt, en þetta er í alvöru satt. Yfirborð hafsins er mannlegi heimurinn í straumrás tímans, hinn gríðarstóri heimur sem við sköpum í gegnum minni okkar, ímyndun, metnað, von og áætlanir. Þetta yfirborð hversdagslegs lífs er rótfast í hinum algilda veruleika á botni mannlegs lífs. Fótur þinn snertir þegar botn hafsins, þú gengur þar nú þegar, en þú trúir því ekki.” 
Við trúum því ekki að daglegt líf okkar gangi eftir botni hafsins vegna þess að við hrærumst alltaf á yfirborðinu, hangandi í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni. ... [...] Ef þú vilt að daglegt líf þitt raunverulega virki, þá sama hvað þú gerir - dansar, gerir list, málar, ljósmyndar, eða situr zazen - líf þitt verður að synda á yfirborðinu og vera samtímis rótfast, gangandi á botni hafsins. Það er að lifa af öllu hjarta.
(Þýðingin er úr bókinni Each moment is the universe eftir Dainin Katagiri)
Hafsbotninn er líking fyrir “algildan veruleika” sem ég upplifi meðal annars sem óendanlegt tóm innra með mér. Tómið sem flestir upplifa einhverntímann, mismikið og misoft. Og sem við erum oft skíthrædd við. Sama gapandi tómið og grínistinn Louis C.K. talar um hér og segir að við bælum niður með símunum okkar.  
En ég hef sjálf aldrei verið góð í að bæla þetta tóm almennilega. Einhvernveginn brýtur það sér alltaf leið uppá yfirborðið og ég hef eytt mikilli orku í að reyna að aðgreina það frá hversdagsleikanum, setja upp grímu til að fela það og hafa stjórn á því. Þá koma to-do listarnir sterkir inn.
Ég nota plön og to-do lista eins og kúta til að halda mér á floti, eins og gengur. Og ef ég lendi í áfalli eða upplifi sorg, þá hangi ég stundum í fyrirfram skilgreindum kúrvum um það “hvernig fólk gengur í gegnum áföll”, eða “fimm stig sorgarferlis”. Og stundum hjálpar það, en stundum getur það orðið mér fjötur um fót og haldið mér frá því að upplifa raunverulega það sem ég er að ganga í gegnum. Þá er eins og ég sé of hrædd við að finna hafsbotninn undir mér, jafnvel hrædd um að það sé enginn hafsbotn, og vil frekar hanga í björgunarhringnum, eins og textinn segir: 
Við trúum því ekki að daglegt líf okkar gangi eftir botni hafsins vegna þess að við hrærumst alltaf á yfirborðinu, hangandi í fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni.
En kannski þarf ég ekki að vera hrædd við hafsbotninn, hrædd við að fara á kaf. Kannski má ég lifa bæði með hausinn í öldurótinu við yfirborð hafsins, með öllum þess fyrirætlunum og veseni, og samtímis með fæturna á hafsbotninum, djúpt undir yfirborðinu, langt frá öldurótinu. Í kafi og ekki í kafi eins og klettur í hafinu. Kannski er það einmitt hreinlega góð leið til að vera til og finna til. Kannski er lífið svoleiðis, hvort sem við trúm því eða ekki. 
“Þegar þú syndir á yfirborði hafsins stígur fótur þinn niður til botns hafsins” 
Tumblr media
1 note · View note
taugahinsegin · 8 years
Text
Styðjum hvort annað til að taka þátt í lýðræðinu
Tumblr media
Elsku þið. 
Það er mín kenning að ríkisstjórnin verði felld ekki vegna þeirrar siðferðisklemmu sem hún er í eða vegna þeirra augljósu og yfirþyrmandi skynsemisraka sem mæla með því að hún segi af sér. 
Ég held að ríkisstjórnin muni á endanum kikna undan því tilfinningalega álagi sem það veldur að reyna að standa af sér allan þrýstinginn í samfélaginu: 
Hávaðann, trans-kenndan trumbusláttinn, snilldarlegu mótmælaskiltin, greinaskrifin, facebook dótið og netið allt, undirskriftalistana, óttann við það sem koma skal varðandi Panamaskjölin, viðtal eftir viðtal við óánægt framsóknar-, sjálfstæðis-, og indefence-fólk, knýjandi, upplýsta, staðfasta og sem betur fer stundum tilfinningaheita gagnrýni stjórnarandstöðunnar, hárbeitt grínið ("Þessi heisáta er í augnablikinu forsætisráðherra"), stöðuga fjölmiðlaathygli og þrýsting frá innlendu og erlendu blaðafólki, aulaáhrifin af viðtölum við valdaforeldra og alls sem ég er að gleyma, <bætið við ykkar uppáhalds>. 
Ég hvet ykkur og okkur öll því til að sýna hvort öðru samstöðu í öllum þeim aðferðum sem við notum, sem við viljum nota eða getum notað til að mótmæla eða til að bregðast við því sem er að gerast. 
Sum okkar eiga erfitt með að höndla stóra hópa fólks, sum okkar eiga þess ekki kost að fara niðrá Austurvöll vegna vinnu, veikinda, ábyrgðar á ástvinum eða annarra ástæðna. 
Lýðræðisleg þátttaka er mis-aðgengileg fólki, og stundum mjög óaðgengileg. 
Styðjum hvort annað og hjálpum hvort öðru við að bregðast við á þann hátt sem við ráðum við og gefur okkur kraft tilbaka. Hjálpum hvort öðru til að hafa rödd og nota hana, í hvaða formi sem sú rödd birtist eða hvort hún er yfirhöfuð rödd. 
Mótmæli og lýðræðisleg þátttaka þarf helst að vera tilfinningalega "sjálfbær", og við þurfum að fylla á tankinn okkar, hvernig sem okkur finnst best að gera það. Fyrir suma, og það á stundum við um mig, er góð útrás fyrir reiði og það að "líða asnalega" með þetta allt, að fara niðrá Austurvöll með Quality street dós og sleif, sparka í grindverk, leita uppi Arkestra hljómsveitina og lemja á dós í takt með þeim. Syngja smá. Taka myndir á snjallsímann sem ég er by the way farin að teygja mig í þótt ég sitji á hugleiðslupúðanum - síðustu vikuna. 
Eftir klukkutíma á Austurvelli er ég yfirleitt komin með nóg. Og það er alltílagi. Við tökum vaktir, við réttum hvort öðru sleif þegar við förum heim af mótmælum, við tökum myndir af félögum okkar og dreifum til að veita innblástur. Kannski getum við komið með heitt vatn á brúsa og gefið smá með okkur. Það er gott að faðma fólk. Kíkja niður á Austurvöll, láta telja sig, faðma einn og fara svo heim í bað. Knúsa vinabörnin okkar og vinadýrin okkar. 
Tumblr media
Eða koma ein á Austurvöll, standa langt frá, taka inn mómentið, horfa á fólkið, hlusta á hljóðin, anda að sér ilminum af grasinu og moldinni í rigninunni. Taka þátt með því að vera, ekki gera. 
Og ef við getum bara setið heima og barmað okkur yfir fréttunum, eða að við getum ekki einu sinni hlustað á fréttir því álagið er of mikið, eða við trúum á aðrar leiðir, þá er það gott og rétt. 
Við höfum öll hlutverk, einhver þarf að vera heima og horfa á fréttirnar, og einhver þarf að horfa ekki á fréttirnar. Einhver þarf að fara í ræktina og búa til endorfín til að hvetja þau áfram sem hafa ekki sinnt líkamanum í viku. 
Og þetta á líka við um fólkið sem er með samúð eða samkennd gagnvart ríkisstjórninni. Einhver þarf að biðja fyrir Bjarna Ben, biðja fyrir foreldrum Sigmundar Davíðs og biðja fyrir þinginu öllu. Njótum þess að vera þakklát fyrir Vigdísi Hauks og Höskuld. Það er góð tilfinning að vera þakklát. Takk. 
Allt þetta fólk þarf hlýju okkar sem viljum veita hana, og fallegar hugsanir. Það er hægt að sýna samkennd á sama tíma og við setjum mörk, sýnum tilfinningar og neitum að taka þátt í ruglinu áfram. 
En við þurfum ekki öll að vera á sama stað og vera með sömu nálgun. Við erum öll sami orkulíkaminn, við styðjum hvort annað í vera sjálfbær í þátttöku okkar í lýðræðinu. 
Í hnotskurn: 
Það er áreitið sem mun fella ríkisstjórnina. Hrokaskelin mun molna utan af stjórninni og innan hennar er fátt til að hengja sig í. Áfram við, áfram þið, sýnum mildi gagnvart sjálfum okkur, sýnum hvort öðru stuðning, sýnum staðfestu, úthald og kærleika og þá kemur þetta. Við erum búin að sýna ótrúlegan styrk og þolinmæði og dugnað hingað til. Við getum þetta! 
Sjáumst í byltingunni. 
Tumblr media
0 notes
taugahinsegin · 9 years
Text
Um erfiðustu stundirnar í lífi mínu - undirbúningur fyrir þunglyndisbatablogg
Tumblr media
Þessi mynd er af hellisvegg. Ljósið til hægri kemur frá höfuðljósinu mínu. Til að róa neikvætt sjálfstal er hægt að lýsa ljósi athyglinnar á erfiðu hugsanirnar. Þá kemur í ljós þessi líka fallegi hellisveggur. 
Kæru lesendur.
Nú er kominn tími til að skrifa um myrkrið. Ég vil skrifa um leiðir til að kanna það og leiðir til að lýsa það upp. Og leiðir til að líða betur. Ég hitti vinkonu mína á förnum vegi um daginn og hún sagði mér að hún væri í janúarþyngslum. Þetta er algengt hjá okkur hér í skammdeginu. Sjálf fæ ég stundum janúarþyngsl. Oft fæ ég vorþyngsl (af því þá eru allir eru skyndilega farnir að hanga á Austurvelli/keyra um með barnavagnana sína í sólarhringsbirtu og ég er rétt búin að venjast bjarnarhýðinu og þá er ég algjörlega úr sínki við heiminn sem er skrýtið og erfitt).
Nú síðast fékk ég nóvemberþyngsl. Í einn og hálfan mánuð fannst mér erfiðara að vera til heldur en mánuðina á undan. Ég var viðkvæm, mér fannst ég vera ósköp smá, ég tók rökræðum svolítið eins og árásum, ég vildi ekki taka skammdegismyrkrið í sátt. Ég var döpur.
Þetta er ein birtingarmyndin á mínum lægðum, stundum eru þær miklu dýpri, stundum styttri og stundum lengri. Stundum bara glefsur. Nú um daginn þurfti ég mikið að velta fyrir mér hvers vegna ég vaknaði og sofnaði og gerði eitthvað þess á milli, til hvers að gera alla hlutina? Þessi hugsun kom upp oft á dag í nokkra daga en svo náði ég að hvíla mig almennilega og þá hætti hún að koma í bili. Ekki það að þetta er mjög lógísk spurning eins og margar spurningar sem ég spyr mig í vanlíðan. En það þýðir ekki að ég eigi að bíða með að líða vel þangað til ég hef svarað þeim.
Stundum er ég með þráhyggjuhugsanir um það hvernig ég geti lifað dekurlífi á meðan fólk þjáist vegna stöðugrar ofbeldis- og stríðsógnar og hamfara. Þetta eru bæði mjög skiljanlegar hugsanir en líka góð leið til að finnast ég vera léleg manneskja sem er mitt comfort zone og ágætis leið til að beina sjónum frá þeirri ábyrgð sem ég þarf að sinna í lífi mínu en veigra mér við. Í réttum aðstæðum getur þetta þróast útí stöðugar hugsanir um tilgangsleysi alls sem þróast síðan mjög auðveldlega útí tilfinningar um lítilsvirði míns sjálfs og alls annars og endurteknar dauðahugsanir.
Þetta er bara örlítið sýnishorn. Það eru svo margar spennandi og margbrotnar útgáfur af vanlíðunarhugsunum. Ég meina þetta ekki í kaldhæðni. Þetta viðhorf er survival strategía og verður smám saman sannleikur. Ég og minn hugur erum spennandi. Með allri þessari depurð. Því hvað sagði ég, ég heiti Arnþrúður og ég er er taugahinsegin. 
  Hér er mynd af litlum bangsa sem er læstur inní umbúðum utan af Pink Lady eplum. Stundum eru vanlíðunarhugsanirnar mjög litaðar af upplifun minni af því að vera læst inní í óhreinum umbúðum neyslusamfélagsins. Kapítalismi veldur þunglyndi. Þetta er ekki bara pólitísk skoðun. Þetta eru tilfinningapólitísk reynsluvísindi. Meira um það síðar. 
Tumblr media
Mig langar að skrifa blogg um bata og vellíðan, ekki bara um lægð, depurð og þunglyndi. Hvernig er hægt að ná bata af þessari tegund af vanlíðan? Hvað geri ég þegar ég finn að ég er að síga, að það þyngist í mér pundið, að heimurinn verður grár og fólkið með og vandamálin hrannast upp?
Til að ykkur finnist vera einhver fótur fyrir því sem ég er að tala um vil ég samt fyrst gefa ykkur innsýn inn í mína eigin sögu. Það eru margar tegundir af svokölluðum geðlægðum eða lægðarupplifunum. Sumar eru meira taugahinsegin en aðrar. Ein tegund er langvarandi hálfömurleg líðan jafnvel árum saman og sumar eru stutt tímabil af örvæntingu og hryllingi. Þetta á sér allt nöfn hjá læknunum. En þetta er ekki blogg um greiningar og kannski verður þetta einhvern tímann blogg um krítíska sýn á greiningar.
Að því sögðu þá hjálpaði greiningin mér. Þegar ég greindist með „major depressive episode“ eða alvarlega djúpa geðlægð fékk ég loksins viðurkenningu á einhverju sem mér fannst satt um sjálfa mig. Þetta var semsagt „major“. Ytri sönnun á því sem ég vissi hið innra þótt ég ætti engin orð yfir það. Ég vissi bara að ALLT VAR RANGT og þessi klínísku orð – í bland við alvarlegt fas geðlæknanna minna – virtust að einhverju leyti, út frá læknisfræðilegum forsendum, snerta örvæntinguna inní mér. En hingað til hafði hún legið ósnert á þann hátt. Snertingin var góð. Ef gott skyldi kalla.
Tumblr media
Þegar ég er í þunglyndi á ég erfitt með að taka einföldustu ákvarðanir. Á myndinni eru einkenni alvarlegrar djúprar geðlægðar eða –röskunar og eitt þeirra er „erfiðleikar við hugsun, einbeitingu eða að taka ákvarðanir“. Ég sem hélt að ég væri ónýtur persónuleiki. Greiningin gaf mér leyfi frá samfélaginu til að vera á þeim stað sem ég var.
Mitt þunglyndi lýsir sér á ólíkan hátt í hvert skipti sem það kemur. Það lagast yfirleitt ár frá ári, eftir því sem ég flysja utan af lauknum sem er varnarhættir sjálfsins og ég læri nýjar og kærleiksríkari leiðir til að nálgast þunglyndið og sjálfa mig. Oftast kalla ég það samt depurð því það er einmitt það. Ég er bara döpur. Stundum byrjar depurðin sem sorg. Sorgin er stundum yfir einhverju sem var að gerast, en stundum yfir einhverju sem gerðist fyrir löngu eða yfir hinu og þessu. Oftast yfir einhverju sem ég held að „hinir“ myndu ekki gera mikið úr. Sem betur fer veit ég núna að áföll eiga sér engin viðmið nema í eigin sjálfi.
En depurð er lúxus, depurð er hluti af ölduróti lífsins fyrir allt fólk og á ennþá eitthvað skylt við tilfinningar og er hægt að deila og tengjast öðrum í gegnum. Þunglyndi er öðruvísi fyrir mér. Versta tegundin af þunglyndi, sem ég upplifði uppúr tvítugu lýsti sér einhvern veginn svona:
Ég var nemi í raftónlist í Hollandi, á öðru ári. Þetta var Draumanámið mitt, enda hafði ég verið í rafhljómsveitum og tölvutónlistarnámi, kennt unglingum að búa til og njóta raftónlistar og lifði og hrærðist í heimi góðra hátalara, magnara og heyrnatóla, industrial riþma og undurfagurra píp- og bjögunarhljóða. Á margra mánaða tímabili, með versnandi og versnandi líðan, hætti ég að mæta í skólann. Ekki af því ég tæki ákvörðun um það heldur af því smám saman hætti ég að komast alla leiðina. Ég gekk hálfa leið og snéri við, hætti svo við að snúa við, snéri svo aftur við og hætti svo aftur við, fram og tilbaka og aftur heim. Næst komst ég styttra og svo styttra og svo hætti ég að lokum að fara í skólann. Ég reyndi að fara á aðra staði, en hver staður sem ég fór á var verri en staðurinn sem ég var að koma frá. Þetta var óleysanlegt völundarhús. Einna verstur var yogatíminn í úthverfinu. Ég var að vona að kennarinn myndi bjarga mér og þótt ég ætti engar meðvitaðar lausnir til held ég að undirmeðvitundin hafi viljað að hún færi með mig heim til sín í einhverskonar time-out. Hún gerði það ekki. Ekki heldur sálfræðingurinn, sem vildi að ég skrifaði dagbók um hvað ég gerði („já en ég geri nánast ekki neitt“ hugsaði ég og þagði). Dagbókin var tóm í hverri viku og sálfræðingurinn  tönnslaðist á orðinu „self-efficacy“ sem var eitthvað sem ég átti að læra en í hverjum tíma mistókst henni að útskýra orðið fyrir mér.
Heima var einn af þessum stöðum sem fór síversnandi því oftar sem ég kom á hann en samt var hann eini öruggi staðurinn því þar gat ég verið ein.
Tumblr media
Þetta er bakliðin á skólanum mínum (vinstra megin). Þar var ekkert grænt í kring. 
Hvers vegna komst ég ekki lengur í skólann, hvers vegna gat ég ekki farið út?
Nú það var alveg augljóst, af því ég kunni ekki það sem ég var að reyna að læra, og ég var ekki búin að semja besta lagið sem ég gat samið, af því ég var ekki búin að læra á öll tækin, af því ég kunni ekki að setja saman synthesizer eins og sumir aðrir, af því Björk var beisiklí búin að semja allt sem mátti semja og The Smiths restina, af því það tók mig marga klukkutíma að búa til almennilega lúppu, af því hugmyndirnar mínar misheppnuðust, af því það var ekki rauður þráður í lífinu mínu ólíkt hinna, af því ég gat ekki almennilega lært stærðfræði (wiskunde) og hljóðeðlisfræði á hollensku (een golfvoorm = hljóðbylgja) og það virtist að ég myndi kannski falla í því og það mátti ég ekki fyrir sjálfir mér, af því þá var ég misheppnuð, (það hét reyndar looser í mínum huga – ég var alin upp með Bítlunum) og ég gæti ekki farið heim til Íslands að hvíla mig þótt ég vildi því þá myndu allir fyrrum tónlistarvinir mínir komast að hinu sanna um mig og var ég þess vegna dæmd til að lifa í vanlíðan í ljótri borg og ganga meðfram hávaða og brautarteinum í skólann, af því ég gat hvort sem er ekkert í tónlist þótt ég hefði verið góð að feika það, af því tónlistarforritið sem ég bjó til var ennþá með smá „click“ hljóði í byrjun hverrar lúppu og ég gat ekki lagað það sama hvað ég reyndi,
...öndunarpása...
…svona pása kom aldrei í raunveruleikanum...
…nema stundum ef mér tókst að ánetjast einhverju eða einhverjum...
…anda djúpt...
af því ég var ekki nógu hugmyndarík í eldamennsku, nema þegar ég fékk hugmyndina að hringja í vinkonu og afrita hennar innkaupalista en það vann gegn mér fljótlega því það var dæmi um að ég var eiginlega ekki með eigin persónuleika, af því ég var ekki með nógu spennandi skoðanir á hlutunum og sagði oftast já við síðustu ræðumanneskju, af því ég var í rauninni alls ekki sæt þótt ég hafi einhvern tímann haldið það, af því ég gat ekki klætt mig þann morguninn og var ekki með neinn smekk, nema stundum en það telur ekki nema það sé alltaf, af því ég svaf ekki neitt – aftur og aftur og það eru takmörk fyrir því hvað kaffi gerir fyrir mann, nema þá helst að auka á kvíðann en kvíði var ekki hugtak þá, af því áfengi virkar ekki lengur til að gera mig glaða, af því maðurinn sem ég vildi vildi mig ekki, enda kann ég ekki skil á hámenningu og get ekki svarað fyrir mig þegar fjölskyldan er kaldhæðin, af því konan sem ég kyssti átti að sjálfsögðu mann því ég má ekki upplifa hamingju af því ég kann hvort sem er ekki að lifa, og ég er hvort sem er ekki lesbía svo þetta voru enn ein mistökin í lífinu og tvíkynhneigð var ekki til sem hugtak, af því ég var ekki eins og þessi, þessi eða þessi, í stuttu máli af því ég var röng manneskja, í röngum líkama, í vitlausu húsi. Sem slík gat ég ekki auðvitað ekki mætt í skólann enda þurfti ég að leysa öll þessi vandamál fyrst og hugsa mig í gegnum þetta. Auk þess var orðið erfiðara og erfiðara að hitta vini og kunningja sem sögðu stundum hluti eins og „Adda, keep it cool“, og meintu það vel. Í ofanálag var skólinn líka rangur og húsið með sick building syndrome.
Þetta ástand á sér líka ýmis nöfn og eitt þeirra er automatic negative thoughts og stundum rumination. Sumir læknar vilja meina að það skipti litlu sem engu máli hvað er innihaldið í svoleiðis hugsunum svo það er það sem ég hélt þá bara líka fyrst um sinn í batanum. Seinna var hjálplegt fyrir mig að skoða innihaldið því þetta var árás og ég þurfti að vita hvers eðlis, hvaðan hún kæmi og hver væri orsökin. 
Tumblr media
Myndin er af heila með risamunn sem segir eitthvað eins og: Hættulegar hugsanir. Hjá mér er þetta heili sem snýst gegn sjálfum sér. Brrrrr. Þetta er reyndar sænskt aktívistablað. En það er ekki ótengt. Ofhugsun um pólitík og hvað ég er afleit í að bjarga heiminum er ekki alltaf hjálpleg þegar hún tekur fókusinn frá nærumhverfinu mínu og hindrar aðgang minn að eigin tilfinningum og líðan.
  Ég sagði nei við öllu sem mér var boðið í eða ég beðin um. Viltu spila á tónleikum með okkur, það verður æði, forritið þitt hljómar svo fallega? Nei (veit hann ekki að ég verð aldrei tilbúin og þarf auk þess að finna út úr því hvers vegna ég er á lífi fyrst?) Viltu koma í ökuferð til Belgíu? Nei (Hvernig dettur henni í hug að ég megi koma með í bíl með glöðu fólki sem kann að vera í útlöndum og kann að „nota nálægðina við París“?) Viltu koma í mat? Nei (Vinkona mín getur ekki bjargað mér og ef hún getur ekki bjargað mér þá hef ég ekkert að gefa og það er svo óþægilegt að stara í þögn með fólki sem vill tala).
Smám saman stoppaði ég, eins og úr sem stoppar. Ég sat á sófa og horfði á herbergið mitt. Í heilan dag. Eða heila nótt. Vikum saman. Ég hélt utanum hnén og reyndi að kremja mig saman. Ég sá rauðar útvarpsvekjaratölur og fólk sem hataði mig ef ég reyndi að loka augunum. Ég lá í rúmi og reyndi að verða eitt með rúmbríkinni eða veggnum. Ég nuddaði saman fótunum. Ég gat ekki skrifað neitt því setningarnar urðu að lúppum. Síðasta orðið aftur og aftur í lóðréttri línu á blaðinu.
Tumblr media
 Bara svo það sé á hreinu, þegar ég segi „lúppur“ þá meina ég alvöru lúppur. Eða það er reyndar misjafnt. Í textanum koma fyrir a.m.k. þrjár gerðir af lúppum, teiplúppa, tölvulúppa og hugsanalúppa. Myndin er af analog teiplúppu. Kann það ekki á íslensku. Gaman að því. 
Í huganum var það eins. Ég hjakkaði, eins og sekúntuvísirinn milli tveggja mælistrika, á sömu hugsununum, sömu orðunum og hætti aldrei. Stundum var það orðið nei, stundum orðið fyrirgefðu, stundum orðið æ. Ég vissi ekkert hvaðan þetta kom.
Þegar vinir heimsóttu mig þrátt fyrir að ég reyndi að koma í veg fyrir það þá starði ég í augun á þeim þangað til þau grétu. Ég grét ekkert lengur. Ég horfði á símann og beið eftir að hann hringdi. Ef hann hringdi svaraði ég ekki. Einu sinni hringdi hann og það var gamall vinur sem hringdi nánast uppúr þurru og sagði mér að hætta við að taka lífið mitt, hann hefði reynt og hætt við og ég ætti líka að hætta við. Ég man ekkert ástæðuna, því hún skipti engu máli fyrir mig. Ekkert skipti máli því ég var svona. (By the way, takk. Það skipti víst máli að þú hringdir, því þú sýndir mér samkennd og sýndir mér að ég skipti máli, og það hafði áhrif á undirmeðvitundina þótt ég tæki ekki eftir því þá).
Ég var röng og mér myndi alltaf líða svona því þessi líðan var hvort sem er bara uppmögnun á þeirri líðan sem ég hafði haft síðan í barnæsku og engum sem ég þekkti hafði liðið svona og þar með var það úthugsað og vonlaust. Allt hitt fólkið gat verið til og kunni þess vegna að vera til. Ég hafði ekki fengið leiðbeiningarnar um tilvist og ég var búin að þráspyrja alla vini mína og fjölskyldu og líka alla hugsanlega einstaklinga sem ég treysti (dæmi: Guðbergur Bergsson, sem svaraði ekki bréfinu, Morrissey, sem svaraði ekki flöskuskeytinu, Eminem sem svaraði ekki hugboðum og Kurt Cobain, sem svaraði að ég held ekki handan-skilaboðum, nema það hafi verið hann þetta með sporvagnsteinana sem kemur bráðum. Ég vissi sko ekki að það væru til konur sem hefðu liðið illa.)
Þetta var endastöðin. Mánuðirnir á undan voru allt öðruvísi þunglyndi, og hétu kannski ekki einu sinni þunglyndi. Ástarsorg, of mikið álag, fullkomnunarárátta, skömm yfir allskonar, kvíði, fíkn, áfengi, grátur, samtöl við mömmu á hverjum degi um hvað allt væri hræðilegt, endurtekin vonbrigði í áætlunum mínum, alltof langir dagar í stúdíóum, alltof langar ferðir til lítilla hollenskra miðaldaborga til að fá innblástur og afraksturinn var tónverkið Dropinn holar steininn sem var hvorki fugl né fiskur í mínum stóra huga, og fékk þar að auki gagnrýni hjá nefndinni, endurteknar „lokatilraunir“ til að læra að lifa með hjálp ýmissa góðra sálna, þvingaður ofurhressleiki og gríma, lokatilraunir til að elska hina og þessa skipulagðar aðgerðir til að láta mig verða venjulega. Uppsöfnuð ofþreyta. Hausnum lamið upp við stein. 
Tumblr media
Ein skemmtilegasta leiðin sem ég lærði var hjá kunningjakonu minni sem var einhverskonar lifecoach áður en það hugtak var til. Hún lét mig kaupa fílófax og skipuleggja eftir hlutverkum sem ég sinni í lífi mínu, og kenndi mér að skipuleggja hverja viku þannig að ég sinnti einhverju í hverju af þessum hlutverkum. Vinkona, dóttir, systir, tónlistarnemi, eigin umönnunarmanneskja, þjóðfélagsþegn, o.s.frv. Frábær hugmynd, en því miður ótímabær á þessum tímapunkti.
Þegar ég var ennþá í því að fara útúr húsi var ég farin að hanga á brautarstöðinni af því ég gat ekki farið í skólann og ég var kannski einhverstaðar með fantasíur um að vera Kristjana F í Dýragarðsbörnunum. En ég kunni ekki að taka eiturlyf því ég varð svo hrædd við raunveruleikaruglinginn sem var víst nægur fyrir. Ég var ekki eiturlyfjafíkill og þess vegna var í raun ekkert að mér. Ég vonaðist til að útigangsfólkið myndi bjarga mér sem það gerði auðvitað ekki, eða að eitthvað myndi “gerast” sem það gerði auðvitað ekki og að lokum var ég farin að horfa á sporvagnsteinana og fantasera, ef aðeins ég hefði hugrekkið til að enda lífið mitt. Klysjan sem var samt með fáum hlutum sem ég var viss um og gat gúterað þessa daga: Ég kann ekki einu sinni að deyja því ég kann ekki neitt. 
Tumblr media
Þetta er mynd af brautarstöðinni Holland Spoor sem var rétt hjá húsinu mínu. Ég man hvað mér fannst ég ógeðsleg fyrir sjálfsvíshugsanirnar. Því oftar sem ég hugsaði svona því minni rétt hafði ég á lífinu fannst mér. „Fólk er að deyja úr vannæringu útí heimi og hér vafra ég um á sporvagnateinum og vorkenni mér fyrir að vilja enda lífið mitt, ég sem á þak yfir höfuðið og pening fyrir mat.“
Líkaminn breyttist og ég eyddi svo miklum tíma ein að ég var farin að taka eftir og upplifa líkama minn og lífeðlisfræði á mjög náinn hátt. Ég starði í spegilinn og fylgdist með augunum. „Þau eru öðruvísi en þau voru áður, augasteinninn hefur stækkað. Ég er að verða geðveik það er greinilegt. Svo mjókka ég líka og mjókka“. Þetta var reyndar með uppbyggilegri aktívitetum mínum á þessu tímabili. Þetta og að fara í heita sturtu þar sem ég stóð eins lengi og hægt var án þess að vera hent út af meðleigjandanum mínum.
Ég man þegar ég las um þunglyndi seinna og horfði á bíómyndir og fattaði að þar sem ég sat á sófanum mínum í stóra hálftóma herberginu og ruggaði mér tímunum saman var ég alls ekki svo ólík staðalímyndinni af katatónískri manneskju í myndum um geðveikt fólk. Ég var svoldið stolt af því.
...
Ég er að hugsa um að enda á cliffhanger. Söguhetjan lifir, það er allavega á hreinu. Það hefur eitthvað að gera með þessa fallegu byggingu hér og fólkið inní henni: 
Tumblr media
Myndin er af geðdeild Landspítalans. Þar er margt gott fólk en ekki voru allar leiðir sem kenndar þar jafn hjálplegar fyrir mig þegar til lengri tíma lét. Byggingin er mögulega líka veik bygging eins og tónlistarháskólinn í Haag. 
En batinn næstu vikurnar hafði líka eitthvað mikið að gera með fjölskylduna mína, vinina mína sem ótrúlegt en satt vildu ennþá þekkja mig, körfubolta, stjórnmálafræðiritgerð vinkonu minnar, Eminem, bíómyndir um pólitíska skandala, púsl, bækur, pillur og svefn. Langtímabatinn hafði svo mikið að gera með batasamfélag, náttúru, hæli, sálfræðinga, tíma, sjálfskærleik og sjálfsvinnu. 
En ég veit ekki hvort ég skrifa strax hvernig það atvikaðist allt saman. Þetta átti nefnilega að vera blogg um ýmsar leiðir til að takast á við depurð og þunglyndi, stuttar hnitmiðaðar lausnir. Ekki ólíkt því þegar Vilborg pólfari lýsir leið sinni gegnum lífið í glærusjói. Í staðinn var þetta brot af minni sögu. Næst koma vonandi batahugmyndir. Sit tight!  
4 notes · View notes
taugahinsegin · 10 years
Text
Nánar um flóttaleiðir: Tengsl mín við koffín 2. hluti
Til að losna við fíkn held ég að sé mikilvægt að vita hvaða ástand kallar á hana. Koffín er eitt af þeim efnum sem ég hef notað í gegnum lífið til að komast þangað sem mér hefur þótt eftirsóknarvert að komast, í líðan starfi og hegðun, en ekki getað komist á í eigin mætti. Eða finnst ég ekki geta það. 
Til dæmis: 
- Þegar það er kominn nýr dagur og mig langar að hann byrji í vellíðan. 
- Þegar ég þarf að fá góðar hugmyndir.
- Þegar mig langar til að vera „heilbrigð“. 
- Þegar ég vil upplifa að ég tengist fólki en það gengur eitthvað illa.
- Þegar ég vil vera skemmtileg og klár, eins og Gilmore Girls hetjan Lorelai sem notar svo margar menningartilvísanir í einni setningu að þú þarft örvandi efni til að fylgja henni eftir. 
Mynd: Lorelai, móðirin í Gilmore Girls, brosandi með kaffibolla. Einu sinni bauð karlmaður Lorelai á deit og spurði hvort hún drykki kaffi. Hún sagði: „With my oxygen”. Váááá. 
Tumblr media
  - Þegar ég fer í flugvél, sérstaklega morgunflug. Kaffi á næturna er eitt það fallegasta sem ég veit. Svoldið það sama og að vakna tvisvar á morgnanna til að reykja fyrstu sígarettu dagsins. 
- Þegar ég er að fara að leiðbeina háskólafólki í að lesa heimspeki og er svo gott sem farin útúr líkamanum af kvíða fyrir tímannum svo ég verð að fá mér kaffi til að „jarðbinda mig“. 
- Þegar ég er í vinnunni og þarf að hitta marga hvern á eftir öðrum.
- Þegar ég er í vinnunni og þarf að vinna þegar ég ætti að vera sofandi vegna uppsafnaðrar þreytu.
Í gærkvöldi sat ég í n-ta skiptið og gúgglaði „caffeine addiction“. Ég las enn og aftur um lífeðlisfræði koffíns en í þetta skiptið lærði ég eitthvað nýtt. Það sem hér kemur á eftir er það sem ég vissi fyrir (allt með fyrirvara þess að ég er ekki taugalífeðlisfræðingur, því miður): 
Koffín eykur framleiðslu dópamíns, vellíðunartaugaboðefnisins sem á stóran þátt í að gera efni ávanabindandi að mér skilst. Koffín hefur líka áhrif á framleiðslu kortisól hormónsins en kortisól er stress hormón sem eykst yfirleitt um hálftíma eftir að þú vaknar og tekur þannig þátt í dægursveiflunni svokölluðu, ásamt melantóníni (dægursveifla: svefn og vökutakturinn okkar). Ég held að flestir þekki adrenalín enda er það mjög vinsælt hormón í okkar samfélagi. Adrenalín er mikilvægt hormón í ósjálfráða hættuviðbragðakerfi líkamans, sem kallast á ensku „fight, flight, freeze response“ (berjast, flýja, frjósa). Kortisól er líka hluti af þessu viðbragði. Adrenalín gerir okkur kleift að hlaupa undan hungruðu ljóni. Fyrir fólkið sem þarf ekki að standa frammi fyrir svoleiðis hættum eru það aðallega félagslegar og tilfinningalegar hættur sem adrenalínið virkjast við. Þetta útskýrir kannski hvers vegna kvíðin manneskja vill drekka kaffi þó að hún sitji fyrir framan tölvu tímunum saman og undirbúi fyrirlestur. Það er auðvitað talsverð hætta á ferðum:
Fyrirlesturinn gæti verið ófullkominn, ég gæti fengið gagnrýni. Gagnrýni gæti ógnað (starfs)öryggi mínu og afkomu. Svo ég fæ mér annan kaffibolla og bónusinn er að ég er líka í toppstandi til að flýja undan ljóni á meðan.
Það nýja sem ég lærði við lestur á lífeðlisfræði koffíns var nánar um hvað það gerir í taugasamskiptum í heilanum okkar. Muniði þegar ég skrifaði í fyrsta blogginu, í framhjáhlaupi, að kaffi væri vinnumarkaðseiturlyf? Og ýjaði að því að það væri ástæða fyrir því að vinnustaðir væru allir sérútbúnir með ókeypis koffínskammtara, en ekki til dæmis hugleiðslu- eða svefnherbergi? Þetta er ekki tilviljun.
(Ég er samt alls ekki að halda því fram að þetta sé einhvers konar vinnumarkaðssamsæri, enda nær kaffimenningin á Íslandi miklu lengra aftur en tilkoma vinnustaðanna og hefur örugglega verið dýrmætt lyf fyrir geðheilsu Íslendinga öldum saman. Og það er ekki eins og öllu þessu kaffi sé neytt ofan í okkur. Að þessum fyrirvörum gefnum held ég áfram.)
Koffín er sameind sem er mjög lík í uppbyggingu og önnur sameind í heilanum okkar sem heitir adenósín og gefur okkur þreytutilfinninguna. Nánar tiltekið hægir hún á hraða taugasamskipta, þ.e.s.a.s hún hægir á hraða boðefnanna sem koma með skilaboð milli tauganna. Næs, takk! 
Mynd: Koffín sameindin og adenósín sameindin. Sjáiði hvað þær eru líkar.
Tumblr media
Koffín sameindin er það lík adenósín sameindinni að hún getur bundist sömu taugafrumu-móttökurum og adenósínið binst og stendur þannig í vegi fyrir, eða hamlar móttöku adenósíns. Þegar við tökum inn koffín útilokum við því þreytutilfinninguna og upplifum að vera á verði og hafa orku í nokkra auka klukkutíma. Heilinn bregst við koffíninu með því að framleiða fleiri adeníosín móttakara, sem þýðir að við þurfum meira koffín næst til að útiloka þreytutilfinninguna. Allt auka adenósínið sem núna flýtur tilgangslaust um í heilanum gefur síðan nýrnahettunum merki um að það þurfi að búa til meira adrenalín. Þaðan kemur líklega skýringin á því hvers vega hvernig adrenalínið eykst við koffínneyslu. Heilinn bregst líka við með því að minnka fjöldann af móttökurum fyrir nóradrenalín sem er örvandi taugaboðefni, kannski eðlilega þar sem nóg örvun er komin í gang með öllu adrenalíninu.    
Hvað þýðir þetta á tungumáli tilfinninganna? Fyrir mér þýðir þetta að koffínið kemur í veg fyrir að við skynjum eigin mörk og þekkjum eigin þarfir, þreytumörk og hvíldarþarfir. 
Koffín er ekki það eina sem getur bælt heilrbrigða þreytutilfinningu. Það vitum við öll sem höfum borðað sykur, verið ástfangin, verið heltekin af einhverju verkefni og alls konar. En ef við myndum öll skynja betur eigin þreytumörk og virða eigin hvíldarþarfir myndum við líklega gera minna á hverjum degi, þar með talið vinna minna. Eða hvað. Allavega hluti okkar. Við myndum kannski fara heim á daginn einhverjum klukkutímum fyrr en við gerum eða taka okkur pásur og fara svo aftur til vinnu eins og er gert í S-Evrópu. Við myndum líka mögulega ekki gera allt svona hratt og hitta svona marga. Ég veit ekki hvernig þið eruð, en ég er taugahinsegin og vil stundum bara hitta fáa á einum degi til að geta tekið tíma í að melta hlutina. Mér þykir hins vegar eftirsóknarvert að geta gert margt á einum degi, unnið sleitulaust og vakið aðdáun yfirfólksins og vinnufélaga. En það er bara ég og þetta er allt í vinnslu.   
Mynd: Rigningarpollur, eða "núið".
Tumblr media
En koffín hjálpar mér ekki bara að komast á þann stað sem mér þykir eftirsóknarverður. Oft er mér ennþá mikilvægara að taka inn koffín til að reyna að flýja frá þeim stað sem er óeftirsóknarverður. Þetta er staðurinn „núið“ og einkennist á stundum af vanlíðan, leiðindum og tilbreytingarleysi, ótta, kvíða, ýmsum gráðum af þunglyndi, spennu, áhugaleysi, svefnleysi, þreytu, óþolinmæði, sjálfsefa og sjálfsásökunum, lífsleiðahugsunum í kjölfar upplifunar minnar á leiðinleika allra hluta (random dæmi: átakanlega leiðinleg ráðstefna verður áhugaverð fyrir tilstuðlan koffíns).
MJÖG EÐLILEGT AÐ VILJA FLÝJA ÞETTA ALLT hugsar einhver, þar með talið ég.
En á fíklar-í-bata-máli heitir það sem ég er búin að nefna í þessu bloggi: Að nota efni eða eitthvað annað til að flýja sársauka eða hámarka nautn. 
Þessi persónulega reynsla mín passar reyndar mjög vel við reynslu ýmissa annarra sem getið er um í rannsóknarniðurstöðum, að koffín dragi úr leiðindum og stuðli að opnun hugans. Hvort sem það eru áhrifin af auknu spennuástandi eða eitthvað annað:  
Caffeine Effects
by Erowid 
POSITIVE: 
  Reduces boredom [Loke 1988]
Increases performance on boring, repetitive tasks [Smith 2002]
Willingness to consider alternative theories [Martin 2006]
 Hmmm…
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þetta skiptið, mig grunar að þetta sé ekki síðasta bloggið mitt um kaffi. En mig langar að enda á hvatningu til sjálfrar mín og annarra fíkla, á hvaða sviði sem fíknin birtist. Hvatningin er lítið myndband þar sem uppistandarinn Louis C. K. talar um það hvers vegna hann vill ekki gefa börnunum sínum snjallsíma. Hann segir að það sem þau læra að flýja með því að týna sér í snjallsímanum sé það sem það að vera manneskja snýst um, að upplifa tilfinningar, að upplifa leiða, að upplifa sorg. 
Myndband: Brot úr viðtali við uppistandarann Louis C. K. Ef hann hefði getað sagt frá eigin grátkasti án þess að gera lítið úr konum í leiðinni, það hefði verið alveg frábært, en ok enginn er fullkominn. Smellið á myndina til að horfa. 
Tumblr media
Hér er smá kvót úr viðtalinu, lauslega skrifað upp: 
 „You have to be able to sit here and just do nothing. That’s being a person. Underneath everything in your life, there’s that thing, the empty thing, the knowledge that it’s all for nothing and you’re alone.
 […] 
Just be sad. 
Stand in the way of it and let it hit you like a truck.
Because when you let yourself be sad, your body has antibodies, happiness comes rushing in to meet the sadness.“  
  Takk fyrir lesturinn, þið eruð mjög þolinmóð, ég er búin að fara útum allt í þessu bloggi. 
Þangað til næst.
Þetta las ég meðal annars:
http://www.smithsonianmag.com/science-nature/this-is-how-your-brain-becomes-addicted-to-caffeine-26861037/?no-ist
https://www.erowid.org/chemicals/caffeine/caffeine_effects.shtml
1 note · View note
taugahinsegin · 10 years
Text
Nánar um flóttaleiðir: Tengsl mín við koffín 1. hluti
Mynd: Drullupollur sem sýnir fallega heild einstakra stráa. Við erum ekki ein í heiminum þótt okkur líði stundum þannig.  
Tumblr media
Ég er að ganga heim úr miðbænum, úr strætó. Það eru jákvæðar tengingar í huganum. Ég tek eftir blómum, gulum fíflum. Tek eftir grasinu sem vex milli gangstéttarhellna. Sé lilju og fer til hennar. Finn ilminn. Vá hvað þetta er gott. Mmmmm. Ég man eftir góðum minningum. Ég sé möguleika í stöðunni. Ég upplifi sambönd við fólk sem samfelld, í huga mér er eins og þau haldi áfram í stað þess að virðast um garð gengin um leið og ég kveð. Ég get búið til plan og ímyndað mér að fylgja því eftir. Reyndar koma helst til mörg plön í huga mér núna. Ég efast um að neinu verði fylgt eftir því ég veit ekki hvað þessi sigling varir lengi. Ætli þetta hefði verið svona ef ég hefði sleppt kaffinu? Eftir margra vikna koffín bindindi lét ég freistast, af því að ég var svo þreytt á vanlíðaninni. Mig langaði ekki að takast á við daginn. Aftur. 
°* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* 
Þessi næsta bloggfærsla mín átti að vera gagnrýni á slæman fyrirlestur sem ég fór á um fordóma á vinnustöðum. En af óviðráðanlegum orsökum verður hún um koffín í staðinn. Þau ykkar sem vilja ekki að kaffiást ykkar verði ögrað, hættið að lesa. Ég skil ykkur, virði og jafnvel öfunda. Það sem hér kemur á eftir er fyrir okkur hin. Ég má hins vegar til með að setja fyrirvara við lesturinn því ég veit að þetta er viðkvæmt umfjöllunarefni: Öll efni hafa einstaklingsbundin áhrif og ekkert af því sem ég skrifa er hægt að yfirfæra beint yfir á aðra manneskju, hvorki um lífeðlisfræðilega verkun né huglæga. 
Textabrotið fremst er upphaf á hugleiðingu sem ég skrifaði í sumar þegar ég var enn einu sinni búin að falla á margra ára endurteknum tilraunum til koffínbindindis. Eftirfarandi er hins vegar lýsing á koffínfíkn eins og sumir læknar vilja að hún sé skilgreind: 
1. You have a persistent desire to give up or cut down on caffeine use, or you’ve tried to do so unsuccessfully.
2. You continue to use caffeine despite knowing it contributes to recurring physical or psychological problems for you (like insomnia, or jitteriness).
(Persónuleg útfærsla: Þegar viðkvæmur líkamshugur þinn verður veikur af neyslu koffíns og þú hefur fundið fyrir afleiðingunum árum saman en getur samt ekki hætt vegna þeirra tímabundnu líkamlegu og andlegu ávinninga sem þú telur þig fá útúr því.)
3. You experience withdrawal symptoms if you don’t have your usual amount of caffeine. 
Þegar ég gúgglaði „coffee“ í myndabanka internetsins var þetta eini kaffibollinn sem var ekki ástfanginn eða almennt unaðslegur á að líta.  
Tumblr media
  Kæri heimur. Ég elska fáa „dauða“ hluti í þessum heimi meira heldur en kaffi. Ég set dauða í gæsalappir því kaffi fyrir mér fer saman við líf. Þegar ég skrifa þetta kemur sláttur í munninn, koffínslátturinn með bitra bragðinu. Ég er viss um að þið þekkið þetta sem eruð næm fyrir efnum. En tengsl mín við kaffi eru því miður ekki saklaus. Ég þarf að skrifa um þetta því ég er í vandræðum og er að leita nýrra leiða. Ein leið er að viðurkenna vandamálið fyrir fleirum en nánasta hring. Ég get ekki talið þau skipti sem ég hef, seint um nótt eftir enn eitt koffín overdósið gúgglað í desperasjón „caffeine addicts anonymous“ í leit að hjálp og oftast finn ég einhvern einmanna bloggara sem er að reyna að hætta og skýrir bloggið sitt Caffeine Anonymous. Takk fyrir ekkert. 
Hugleiðingin heldur áfram:
Fyrir kaffið hafði ég farið og hitt vinkonu á kaffihúsi í hádeginu og var með áfasta óþægindagrettu. Hrukkur í enninu af áhyggjum yfir öllu eða engu. Ég var hrædd við eftirmiðdaginn, við hvernig allt yrði eftir kaffihúsaferðina. Ég var ekki skemmtileg og ég var svo þreytt á að vera ekki skemmtileg. Þótt ég hafi reyndar verið skemmtileg síðast í gærkvöldi, þá vildi ég meira. Ég vildi orku til að halda lífinu mínu áfram án stöðugra hléa, án þess að taka aftur og aftur pásu, án þess að þurfa að fara inn í svefnherbergi til að hugleiða eða slaka á. Ég vildi fljóta í gegnum daginn án þess að hann rynni mér úr greipum vegna innra lífsins sem tekur svo mikið pláss, þarf athygli og er að vinna úr erfiðleikum. Mig langaði til að lifa út á við í dag, til dæmis horfast í augu við óttann við að sækja um vinnu eftir næstum tveggja ára óvinnufærni. Mig langaði til að taka ákvarðanir. Opna pínulítið gleði-op til að fleyta mér áfram út daginn. Þótt ég viti að ég borgi fyrir þennan gleðilúxus dýrum dómum með svefnleysi og kvíða í kvöld og á morgun. Og enn einni hringferðinni í að hætta koffín neyslu. Því það er svefn svefn svefn sem læknar, svefn og slökun, án svefnsins verður allt rangt.  
Svo ég tók boði vinkonu minnar sem vildi splæsa á mig kaffi og ég fékk efnið. Efni, efni, efni. Efni sem gerir allt svoldið þjálla fyrir mig. Sem mýkir og slípar til köntóttar hugsanir sem eru harðar hver við aðra. Ahh... þægilegt.
°* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* 
Ég veit að ég er ekki eins og fólk er flest. Ég er taugahinsegin (sjá síðasta blogg) og það er ekki víst að margir tengi við þessa ýktu lýsingu á tengslum mínum við kaffi. Ég man þegar ég var að skrifa á facebook um kaffi þá kom alltaf runa af fólki sem skrifaði: „hvað er þetta, einn bolli á dag kemur skapinu í lag“ o.s.frv. Ég skil þetta. Það getur verið svolítið óþægilegt þegar einhver vill hætta einhverju sem allir hinir elska. En fyrir mig er ekki einsýnt að ég hafi gott af að drekka eitthvað á hverjum degi sem kemur skapinu í lag. Sjálf hef ég notað kaffi meðal annars sem þunglyndislyf, og ein af ástæðunum fyrir því að ég þori oft ekki að hætta er sú tímabundna vanlíðan sem fylgir í kjölfarið og er stundum eins og andstæðan við fegurðina, samfelluna og bjartsýnina sem ég lýsti í upphafi hugleiðinarinnar (köllum það vímu). Þá líður mér eins og einmanna ömurlegu strái í drullupolli sem hefur engan tilgang (Ef það er einhver ákveðin líðan). Þessi færsla er þess vegna jafn mikið um þunglyndi og kvíða og hún er um koffín. Ég vona samt að það séu einhverjir þarna úti sem hafa gagn af því að lesa þetta, hvort sem það er útaf koffínfíkn eða einhverri annarri fíkn.
Þótt útfærsla mín á koffínvímunni og fráhvörfunum sé persónuleg veit ég að flestir hafa upplifað allskonar óþægindi í tengslum við kaffi og koffín. Köllum það aukaverkanir. Ég hugsa að ég taki þátt í jafn mörgum umræðum um aukaverkanir koffínneyslu fólks og ég tók þátt í um áfengisþol, þynnku og þynnkuúrræði þegar ég var unglingur. Að telja upp allar andlegar og líkamlegar aukaverkanir koffínneyslu væri að æra óstöðuan (þið megið endilega senda ykkar ef eitthvað svoleiðis er hægt á þessu bloggi og ég get birt þær allar í einni færslu). Einna áhugaverðast er hvað tengsl okkar margra við koffín eru óörugg eins og birtist í tilsvari vinkonu minnar, þegar ég sagði að stundum fyndist mér kaffið vera minn besti vinur: „Yes I know, but coffee is a fickle friend. One day it makes you feel great, the other it makes you want to vomit.“ Köllum það vont trip.  
Koffínneysla verður mjög fljótt ávanabindandi fyrir marga - en þó ekki fyrir þau okkar sem eru með heila útbúinn með sérstöku efnafræðilegu koffín umburðarlyndi. Við hin upplifum mörg fráhvörf eftir 12 - 24 tíma, mis slæm eftir einstaklingum, skammtastærð og lengd neyslutímabils. En við tökum ekki endilega eftir þessum fráhvörfum því koffín fráhvörf eru í samfélaginu misskilin sem það að vera „lengi að vakna“ (og nú er ég ekki að dissa þau ykkar sem eruð vissulega lengi að vakna, en kaffi ídeólógían ruglar þessu öllu saman). Koffín dílerinn nærist á þessum ruglingi þegar þú ert mætt á kaffihúsið til að kaupa fyrsta bolla dagsins og lætur hana óvart fá sundkort en ekki debetkort af því þú ert svo nývöknuð og fokked up af koffínleysi:  „Svona kortaruglingur er mjög algengur svona á morgnanna - segir mér bara að það sé kominn tími á kaffi fyrir þig!“ Já svo sannarlega, en ekki vegna þess að það að vakna sé sjúkdómur sem einkennist af einbeitingarleysi og þreytu, heldur vegna þess að koffín fráhvörf einkennast af einbeitingarleysi og þreytu (auk hausverks og stundum því sem líkist flensueinkennum). Fyrsti bolli dagsins læknar koffín fráhvörfin og kemur okkur aftur á núll punkt. 
Mynd: Sum eiturlyf eru samþykktari en önnur, getur verið að það tengist því að við erum betri vinnudýr ef við notum koffín heldur en ef við notum kannabis?   
Tumblr media
  Og meira. Koffín er geðbreytandi efni (psychoactive substance) sem hefur áhrif á miðtaugakerfið eins og áfengi, þunglyndislyf, morfín, kannabis, og fleiri og það er í flokki örvandi efna eins og kókaín, amfetamín og lyfseðilsskyldu lyfin sem eru unnin úr amfetamíni. Raunar líður mér svipað þegar ég drekk kaffi eftir smá hlé og ég hef heyrt að fólki líði þegar það er á kókaíni. Mér finnst allt frábært og þar með talið ég sjálf. Þangað til ég drekk of mikið og of reglulega í of langan tíma. Þá hættir efnið að virka eins og meira og minna öll fíkniefni gera, og allt verður ömurlegt. 
Hugleiðingin heldur áfram og þegar hér er komið sögu er hálfur dagur liðinn, áhrifin þverrandi og blóðsykurinn við það að falla. 
Ég kem heim og sest við tölvuna til að fylgja eftir plönunum, fljóta með straumnum, svara þessum tölvupóstum, bjóða fram krafta mína, þora að vera hæfileikarík og hugmyndarík. En tilvistaróttinn læðist að mér í staðinn. Hvað ef ég hefði ekki drukkið kaffið. Hvernig liði mér núna? Er þessi gleði ekki bara plat? Væri ég grátandi eins og í morgun? Væri ég í sundi til að reyna að synda í mig kjark og hugrekki, styrk og sjálfsást? Væri það ekki miklu sannara? Er baráttan ekki sannari en áhrif efnisins, þótt baráttan sé svo svo svo þreytandi? 
°* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *°  °* ¨ *° °* ¨ *° °* 
Hugleiðingin er augljóslega skrifuð á kvíða- og þunglyndistímabili og það er einmitt þá sem koffínið virðist koma svo sterkt inn. Og ég er ekki ein um að finnast það því kaffi er borið fram á nánast öllum hjálparstöðum sem ég þekki, frá geðdeildum útí 12 spora hópa, sálfræðistofur og hugleiðsluhópa. 
Ég ætla að skilja þetta eftir svona, á örvæntingarfullu nótunum, og koma svo með uppbyggilegra framhald eftir viku þar sem meðal annars verður farið nánar út í hvað ég er eiginlega nákvæmlega að flýja með því að taka inn koffín, hvað koffínsameindin gerir í heilanum okkar , sjónvarpsseríu-kaffimusterið Gilmore Girls og hugmyndir uppistandarans Louis C. K. um hvað það er að vera manneskja. 
Þangað til næst! 
Upplýsingar sem ég las: 
Listinn efst um skilyrðin fyrir koffínfíkn er tekinn héðan:http://www.govexec.com/excellence/promising-practices/2014/01/caffeine-use-disorder-serious-problemand-youre-probably-suffering-it/77969/ 
Upplýsingar um áhrif koffíns frá bandarískum rannsóknarvef um geðbreytandi efni, ekki styrktur af ríki eða einkaaðilum: https://www.erowid.org/chemicals/caffeine/caffeine_effects.shtml
Nýleg rannsókn um koffínfíkn: http://www.american.edu/media/news/20140203_Caffeine-Use-Disorder-Needs-Attention.cfm 
Tumblr media
0 notes
taugahinsegin · 10 years
Text
Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn: Dagurinn þegar vinnan aðlagaðist okkur?
Í dag er Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn og ég vildi að geðheilbrigði þýddi ekki í og með: að geta unnið átta tíma á dag, fimm daga vikunnar.
Ég heiti Arnþrúður og ég er taugahinsegin og ég er að reyna að aðlagast vinnunni minni. Svona gengur það fyrir sig:  
Það er föstudagsmorgunn og það er suð í líkamanum mínum. Hvað er suð í líkamanum? Það er erfitt að lýsa því. Meðvitund um allan líkamann sem segir að það sé hleðsla, ofhleðsla. Þrýstingur. Óljósir verkir hér og þar. Of fáir djúpir andardrættir, þunn hella fyrir brjóstinu, spenna í hálsinum, pírð augu. Hugsanirnar eru líka á fleygiferð. Hugmyndir koma með mjög stuttu millibili og ég þarf að anda djúpt reglulega til að koma veg fyrir að ég æði af stað, hringi í fólk, skrifi marga tölvupósta hvern á eftir öðrum, mynda tengingar, taka þátt, taka þátt, taka þátt.
Undanfarin ár hef ég lært að stoppa oft. Stoppa og anda, fara inná við, skoða líkamann og hugann af tilfinninganæmni og forvitni, skoða með innri augunum og eyrunum og upplifa hvernig staðan er. Hægja á. Ég er komin í það mikla æfingu að ég veit að ástandið er ekki gott. Allt er að gerast of hratt, og það er þensla í gangi. Ég veit hvað gerist ef ég stoppa ekki.   
Það er föstudagseftirmiðdagur. Ég er búin að vera í „vinnunni“ í allan dag, þessu fyrirbæri sem virðist stjórna lífum fólks á Íslandi. Vinnustaðir eru staðir þar sem við mörg eyðum ómanneskjulega miklum hluta af lífi okkar á, svo miklum að jafnvel á millistéttarvinnustöðum þar sem aðstæður eru mjög góðar miðað við margt, er fullt af fólki í vinnu við það að gera vinnustaðina þannig að við getum lifað þá af, með skemmtidagskrám og samhristingum. Þeir eru það sem samfélagið okkar gengur út á, þeir eru fyrirbærið sem gerir að verkum að fjölskyldu-, vina- og áhugamála-lífið okkar er ekki „líf“, heldur „einkalíf“. Það að skrifa þessar setningar veldur mér samviskubiti, svipuðu og ég hef heyrt konur segja þegar þær kvarta yfir börnunum sínum „ekki misskilja mig, ég elska börnin mín“. Svo já, ekki misskilja mig, ég elska vinnuna mína.
Það er ekki tilviljun að þessi bolli er fullur af vinnumarkaðseiturlyfinu kaffi: 
Tumblr media
Ég er nýbyrjuð að vinna „fulla vinnu“. Ég byrjaði í júlí eftir tveggja ára vinnumarkaðsfrí. Ég er búin að vera önnum kafin í þennan tíma. Í þessi tvö hef ég verið að umbylta lífeðlisfræðinni minni og hugarstarfsemi og tengslum við heiminn. Þetta felur meðal annars í sér úrvinnslu á áföllum úr fortíðinni, þar sem umhverfið og aldurinn á sínum tíma bauð ekki upp á aðstæður til úrvinnslu. Ég hef tekist á við enduruppröðun og samtengingu minninga, tilfinninga og skynjana úr fortíðinni og líka uppstokkun hugsanamunstra í nútíðinni, endurlærdóm á viðbrögðum mínum við erfiðleikum og endurskipulagningu á tengslum mínum við samfélagið. Á meðan hef ég ekki getað gert mikið annað og meðal annars ekki ráðið mig í vinnu.
Á vinnumarkaðstungumáli heitir svona tímabil „óvinnufærni, tímabundin örorka og endurhæfing“. Ég fékk ómetanlega hjálp frá stofnunum sem nota þessi orð, frá Tryggingastofnun, VIRK, félagsþjónustunni og geðlækni meðal annars. Þessi orð, þótt þetta séu ekki mín orð, eru ekki rangnefni. Óvinnufær. Sko, ég gat unnið í því sem mér var lífsnauðsynlegt að vinna í, en ég var óvinnufær að því leyti að ég gat ekki stólað á að líkamshugur minn myndi geta verið til taks og ástólanlegur fyrir aðra, næsta dag, í heilan dag, í heila viku, í heilan mánuð. Tímabundin örorka. Ég var ekki án orku, en orkan mín var óstöðug og hverful, og ég þurfti að stjórna lífi mínu og umhverfi á stundum harkalegan hátt svo ég myndi ekki allt í einu missa þá litlu orku sem ég þó hafði. Endurhæfing. Jú, en að vinna úr áföllum hefur fært mig á áður óþekktan stað í vellíðan og bata svo ég er ekki bara endurhæfð heldur miklumeirahæf. En nú þegar ég er orðin „endurhæfð“ og  „vinnufær“, meira að segja komin í einhvers konar draumavinnu, þá er ég hugsi. Vil ég svona vinnufærni, vil ég svona orku, svona endurhæfingu? Vil ég vera taugasvona?
Athugið myndina, hún var tekin fyrir starfsmannaskrána í vinnunni. Ósymmetrían í augunum sýnir annars vegar taugasvona, hins vegar taugahinsegin:
Tumblr media
  Að byrja aftur „að vinna“ hefur verið meira átak en ég gat nokkurn tímann ímyndað mér og þrátt fyrir að ég sé að takast á við skemmtileg verkefni sem ég hef brennandi áhuga á þá hefur stór hluti af orkunni farið í að verða ekki aftur „óvinnufær“. Í tvo mánuði, á meðan fólk var að falast eftir fréttum af nýju spennandi vinnunni minni talaði ég bara um hvað ég væri hrædd um að halda hana ekki út. 
Fyrstu tveir mánuðirnir voru zombie mánuðirnir, eins og vinkona mín orðaði svo vel. Þá vafraði ég um á vinnustaðnum og aðal markmiðið mitt var að halda mér vakandi. Vinnustaðurinn er „opið rými“, sem er ekki auðvelt fyrir neitt okkar. Fólk er reglulega að vinna upphátt og ég heyri allt. Allt. Pikk, hnerr, spjall, hlátur, nálægt, langt frá. Lýsingin er undarleg og lítil, útibirtan nær ekki inn að augunum mínum og augun mín eru þurr, gluggarnir oft lokaðir.
Ég var löngu hætt að drekka kaffi, því taugakerfið má alls ekki við auka skammti af streituhormónum inn í kerfið sitt. En ég fann fljótt að kaffi var einn af fáum flótta- og endurhleðslumöguleikum sem vinnustaðir bjóða fólkinu sínu upp á. Kaffi og spjall. En bæði kaffi og spjall voru algjört auka áreiti fyrir taugakerfið mitt sem var nú þegar undirlagt af því einu að horfa á ný andlit á hverjum degi, sitja á einum stól og horfa á skjá vitandi að ég þurfti að halda það út. Í átta klukkutíma. Ég hélt að vinnugyðjan hefði svarað bænum mínum áðan þegar ég fékk tölvupóst með heitinu „bakhurðir og flóttaleiðir“. En hann var ekki um þetta.  
Svo ég þurfti mínar eigin flótta/endurhleðsluleiðir. Þar sem ég er búin að gera hugleiðslu að eðlilegum hluta af lífinu mínu reyndi ég að flétta hana inn í vinnulífið. Vinnustaðurinn gerir ekki ráð fyrir andlegu lífi af neinu tagi, hvort sem það er trúarlíf eða einhverskonar íhugun svo hugleiðslustundirnar fara fram á leynistöðum. Fyrst á afskekktu klósetti niðrí kjallara – en þar var of þungt loft, síðan á kaffistofulager – en þar kom fólk inn til að ná í tebirgðir, og nú síðast í formlegum fundarherbergjum, þegar þau eru laus.
(Ég veit að allir eru með sínar flóttaleiðir. Mínar eru birtugöngutúrar, að stara útum gluggann, og svo þori ég varla að halda áfram með upptalninguna, því þetta er vinnutabú. Í alvöru. Átta klukkutímar, fimm daga vikunnar. HVAÐ GERIR FÓLK?)  
Eftir einn og hálfan mánuð af níðþungri aðlögun og ströngu prógrammi sem fól til dæmis í sér að sofna fyrir hálf ellefu á virkum dögum og fyrir miðnætti um helgar, jóga þrisvar í viku og ekki of mikið af viðburðum eða skemmtun utan vinnunnar, var ég farin að hressast svolítið og venjast. Ég hélt jafnvel að rútínan væri að auka heilsu mína í það heila. Og kannski hefur hún gert það. En svo fór að vera virkilega gaman í vinnunni og ég gleymdi mér stundum yfir áhugaverðum verkefnum og var farin að tengjast vinnufélögunum meira og langa til að vera meira innan um þau í þeirra tempói. Það kom að því að ég stóðst ekki lengur álagið við að troða mínum lifnaðarháttum inn í vinnumenninguna mína og áður en ég vissi af var ég farin að drekka kaffi, borða sætabrauð fyrir 10 á morgnana og rugla þannig í blóðsykrinum og orkunni, sofa of lítið og vakna koffínsnemma, standa ekki upp frá tölvunni, vinna þar til ég hætti að anda djúpt, skipuleggja fundi eftir fimm á daginn, gleyma kaffipásum sem ég ætlaði að taka, hugleiða núll til einu sinni á dag og segja undarlega en samfélagslega samþykkta hluti eins og: „Ég bara gleymdi að borða“.
Sem betur fer þekki ég sjálfa mig nógu vel núna til að vita að ég get ekki sinnt vinnunni minni á þennan hátt lengi í viðbót, hvað þá heilsunni. Svo ég talaði við mannauðsdeildina, þetta yndislega fólk sem er til staðar í svona aðstæðum, og sagði farir mínar ekki sléttar. Ég get samt ekki beðið mannauðsdeildina að breyta vinnustaðnum, að stytta vinnutímann, að gefa mér skrifstofu, að setja upp hugleiðsluherbergi og svefnherbergi, að byggja svalir svo ég geti andað að mér fersku lofti reglulega, að auka skilgreindar pásur, bjóða uppá ávexti og FIFA herbergi ala Silicon Valley og dansherbergi ala ég, og svo endalaust framvegis. Ég get bara beðið um eitthvað til að gefa mér stuðning til að aðlagast vinnustaðnum. Og þetta þykir líklega mjög gott og mikil heppni. Vika á Heilsuhælinu í Hveragerði og minnkun starfshlutfalls. Sem betur fer var það auðsótt. Líka gagnvart yfirmanneskjunni minni, ekkert mál, auðvitað, fullur skilningur, „hvenær ferðu“, „hvernig viltu hafa þetta?“
Takk. Sem betur fer. Hjúkket. 
Mig dreymir samt um hitt samfélagið, þar sem einkalífið er lífið og inní því eru störf og fjölskylda og dans og súrefni, allt eftir því hvað við hver og ein viljum og getum.Hér væri við hæfi að kæmi sci-fi lýsing á hinu fullkomna samfélagi þar sem allir eru og mega vera taugahinsegin. En því miður nær sköpunarkraftur minn ekki lengra í bili, mér detta bara í hug heimildarmyndirnar um líf Amish fólksins sem ég er að horfa á til að róa mig á kvöldin. Það hlýtur að vera til eitthvað betra en það. 
Bæ, ég heiti Arnþrúður og ég vil ekki vera taugasvona, því ég er taugahinsegin.
(Taugahinsegin er íslenskun á orðinu neuroqueer en það er útlensk hreyfing þeirra sem skilgreina hugarstarfsemi sína ekki út frá ráðandi öflum innan læknisfræðinnar)
3 notes · View notes